Salurinn Söngsteinn tekur u.þ.b. 40 manns í sæti og er þá mjög rúmt um gesti. Með auðveldum hætti er hægt að opna inn í annað rými í skemmunni inn af salnum sem rúmar annað eins eða jafnvel fleiri. Í standandi veislum er leikur einn að koma fyrir 150 manns.
Við salinn er stór pallur þar sem ljúft er í góðu veðri að sitja og spjalla og virða fyrir sér fjörðinn og bíða eftir hvalablástrunum sem eru mun meira en daglegur viðburður. Á pallinum er stór heitur pottur (8×2 m.) sem er vinsæl viðbót við veisluhald og hefur t.d. nýst sem afþreying fyrir börn og unglinga.
Gunnar í Hveravík er mikill listakokkur og öðru hverju eru í boði fiskihlaðborð sem hlotið hafa góðar móttökur. Gunnar býðst til að elda fyrir hópa – hvort sem um er að ræða fisk- eða kjötrétti.
Salurinn er leigður út fyrir hópa einn og sér en líka er hægt að leigja hópum tjaldstæði og hafa þá aðgang að salnum, heita pottinum, sturtuaðstöðu, snyrtingu og öllum eldhúsáhöldum, tækjum og tólum.